Laugavegur 34A - Hús Hinriks Thorarensen
Laugaveg 34A reisti Hinrik Thorarensen læknir árið 1929, en hann var fæddur 15. september 1893 og dáinn 26. desember 1986. Hinrik þótti hlédrægur í umgengni en traustur og raungóður er á reyndi. Hann var fæddur á Akureyri, sonur hjónanna Odds C. Thorarensen lyfsala og konu hans, Önnu Clöru Schiöth. Hann ólst upp í heimahúsum, en stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófí 1913. Síðan nam hann læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1918 með góðum vitnisburði.
Húsin nr. 36, 34A og 34 við Laugaveg.
Árið 1919 kvæntist Hinrik Svanlaugu Ólafsdóttur, kaupmanns á Stokkseyri, Árnasonar, og Margrétar Friðriksdóttur Müller. Þau höfðu kynnst í Menntaskólanum í Reykjavík og felldu strax hugi saman. Þau fluttu til Akureyrar fljótlega eftir brúðkaupið þar sem Hinrik varð aðstoðarlæknir um tíma, en sigldu síðan til Danmerkur og var Hinrik læknir á sjúkrahúsum þar um skeið. Eftir heimkomuna frá Danmörku settust þau að í Reykjavík um tíma, en síðar á Siglufírði og var Hinrik læknir til ársins 1928 er hann lét af læknisstörfum og sneri sér að viðskiptum.
Svanlaug og Hinrik eignuðust fjóra syni þá Odd, Ragnar, Ólaf og Hinrik og þegar kom að skólagöngu þeirra stofnuðu þau vetrarheimili á Akureyri, en synirnir stunduðu nám við Menntaskólann þar. Dvaldi Hinrik með fjölskyldu sinni á Akureyri eins oft og við var komið yfir veturinn, en á vorin, þegar skólanum lauk, fluttist fjölskyldan til Siglufjarðar og var þar fram á haust. Svanlaug hélt heimili af mikilli rausn og myndarskap og var rómuð gestrisni þeirra hjóna. Hinrik dáði Svanlaugu alla tíð, en þau hjón voru ólík um margt og áttu ekki skap saman. Þau slitu samvistum. Hinrik bjó síðan einn á Siglufirði allt til ársins 1947.
Hinrik Thorarensen eldri 1893-1986.
Hinrik átti einnig dótturina Stellu Klöru sem hann kom til mennta og lauk hún prófí frá Kennaraskóla Íslands. Hún er búsett í Kanada ásamt manni sínum og börnum. Hinrik var mjög barngóður og fór sérstakt orð af honum sem barnalækni. Hann átti sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar 1924–1930 og lagði sig fram um að bærinn stofnsetti mjólkurbú til að sjá börnum fyrir mjólk, sem oft vildi vera af skornum skammti á Siglufirði í þá daga. Hinrik gerðist umsvifamikill á viðskiptasviðinu á Siglufirði. Hann eignaðist meðal annars prentsmiðju og gaf út fréttablað, reisti kvikmyndahús og starfrækti, svo og hótel og verslun, og annaðist umsjón þessara fyrirtækja, allt þar til hann afhenti sonum sínum, Oddi og Ólafi, reksturinn árið 1947 og flutti til bernskustöðvanna á Akureyri. Eftir nokkurra ára dvöl á Akureyri flutti Hinrik síðan til Reykjavíkur og hóf störf við lyfjainnflutning hjá fyrirtæki Stefáns Thorarensen, bróður síns, sem kenndur var við Laugavegsapótek. Hjá Stefáni starfaði Hinrik til sjötugs er hann settist í helgan stein. Hann bjó á annarri hæðinni í húsi sínu á Laugavegi 34A allt þar til hann fluttist á Hrafnistu.
Götuhæðin skiptist frá upphafi í tvö verslunarpláss. Á eystra plássinu voru tveir gluggar en einn á því vestara. Austan megin var lengi dömuverslun Matthildar Björnsdóttur. Ýmsir eldri Reykvíkingar muna vel eftir Matthildi. Eftir að hún varð gráhærð litaði hún hárið blátt, sem þótti sérstakt. Þarna seldi Matthildur kvenfatnað og það sem nú er kallað „fylgihlutir“.Vestan megin var löng og mjó bókaverslun BSE, þ.e. útibú frá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Plássin voru síðar sameinuð í eitt.
Hinrik var tvígiftur. Hann kvæntist seinni konu sínni, Guðrúnu Olgu Ágústsdóttur frá Stykkishólmi árið 1954. Guðrún var hin mætasta kona og reyndist hún honum vel allt þar til hún lést 1977. Synir Hinriks gengu menntaveginn, Oddur varð lögfræðingur, Ragnar, doktor í rafmagnsfræði (bjó lengst af í Kaliforníu) og Ólafur lærði viðskiptafræði. Yngsti sonur Hinriks og alnafni hóf búskap ásamt konu sinni Emilíu á þriðju hæð hússins við Laugaveg árið 1952.
Hinrik yngri var fæddur á Siglufirði 20. febrúar 1927 og lést í Reykjavík 21. september 2010. Hann kvæntist árið 1952 Emilíu Ellertsdóttur Thorarensen (Millý) sem enn er á lífi. Hinrik gekk menntaveginn eins og eldri bræðurnir. Hann hélt til náms í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk prófi í viðskiptafræði frá Berkley-háskóla í Kaliforníu. Eftir að hann flutti heim árið 1950 vann hann í hagfræðideild Landsbanka Íslands uns Hinrik og Millý stofnuðu verslunina Tískuskemmuna á Laugavegi 34A árið 1953. Hún var í fyrstu lítil vefnaðarvöruverslun og framan af seldu þau gluggatjöld, nærföt og kvenfatnað. Kvenfatnaðurinn náði brátt yfir höndinni og með tímanum varð búðin ein helsta tískuvöruverslun bæjarins. Þau fluttu einkum inn vörur frá Englandi og Ítalíu, náttsloppa frá Bandaríkjunum, en úlpur, kápur og buxur frá Danmörku. Viðskiptavinir einskorðuðust ekki við einn aldurshóp, heldur var hann alla tíð mjög breiður. Þarna var seldur vandaður kvenfatnaður og sanngjörnu verði.
Tískuskemman auglýsir í Morgunblaðinu árið 1973.
Tískuskemman var rekin í húsinu fram á níunda áratuginn og síðustu árin var lager verslunarinnar á annarri hæðinni, þar sem áður var íbúð Hinriks eldri. Eftir að Tískuskemman hætti störfum var innréttuð sælkerakjötverslun og húsinu og jarðhæðin stækkuð mikið inn í lóðina. Þar var byggð geymsla fyrir matvæli og kælir. Mikið var lagt í innréttingar og þótti þetta sérlega glæsilegt fyrirtæki, en því miður var ekki markaður fyrir háklassaverslun af þessu tagi á þeim tíma.